Áframhald næturfunda hjá City Taxa

Það er ýmislegt búið að ganga á síðan um helgina eftir að í ljós kom hvernig í pottinn er búið varðandi framtíð Leigubílastéttarinnar.

Forsvarsmaður stærstu leigubílastöðvarinnar notar orð eins og “grófasta aðför að stéttinni frá upphafi” og annar segir greinilegt að drögin séu “samin á samráðsfundi hópferðafyrirtækjanna”, þannig að hitinn er gríðarlegur í mönnum.

Innanríkisráðuneytið virðist vera tvísaga eftir því sem okkur sýnist.

 

Opinberlega segjast þeir hafa verið að óska eftir tillögum frá okkur varðandi þessi frumvarpsdrög en í tölvupóstum til okkar segjast þeir ekki sjá ástæðu til að ræða við okkur nema kannski um einhver allt önnur mál sem snúa þá helst að leigubifreiðastöðva málum og öðru sem okkur finnst vera aukaatriði miðað við þessa 4 farþega hópferðabíla.

 

Einn af bílstjórunum á stöðinni hjá okkur ætlar á morgun að fara á stúfana og fara fram á rannsókn á orðum starfsmanns Innanríkisráðuneytisins sem komu fram í viðtali á Rás 2 við Ástgeir formann Frama.

Eftir fjölmiðlaumfjöllun mánudagsins setti Innanríkisráðuneytið frétt á vef sinn varðandi málið og féllst ráðuneytið loks á að gefa auka frest til að forsvarsmenn City Taxa gætu svarað þessari aðför á efnislegan hátt. Við fengum auka 10 daga og erum nótt og dag að kryfja þessi frumvarpsdrög til mergjar.
Merkilegt er að um virðis vera að ræða UPPVAKNING frá tíð fyrri ríkisstjórnar sem við héldum að fv. Innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson hefði svæft svefninum langa. Virðist sem embættismenn innan ráðuneytisins hafi tekið málið upp af eigin frumkvæði og vísar hver á annan og alltaf svarar nýr og nýr starsmaður fyrirspurnum okkar sem við höfum látið rigna yfir ráðuneytið síðan um síðastliðna helgi.

Kannski er þarna komin ljóslifandi ein af ástæðum þess að margir telja að full ástæða sé til að skipta út öllu embættismannakerfinu strax eftir Alþingiskosningar.

Við hjá City Taxa munum nýta nótt sem nýtan dag að kveða niður þennan DRAUG sem okkur sýnist að murka muni lífið endanlega úr leigubílstjórastéttinni.