Lækkun á lægri stöðvargjöldum.

Stjórn City Taxa hefur ákveðið að lækka stöðvargjöld hjá þeim sem eru án þjónustu niður í 4.900 kr.

Þeir sem eru í þessum flokki taka ekki túra í gegn um stöðina nema bíllaust sé í hærri flokknum en þar eru stöðvargjöldin óbreytt eða kr. 24.300

Til að koma til móts við þá sem færa sig yfir til okkar verður fyrsti mánuður án stöðvargjalda enda töluverður kostnaður við að láta breyta mæli, talstöð, posa og öðru sem til fellur.

Þeir se eru án þjónustu fá eftir sem áður akstursheimildir fyrir afleysingamenn á sama verði og aðrir eða 900 kr. hver heimild.

Verðskráin mun þá líta svona út þann 1.febrúar 2014

Forgangsflokkur: 24.300
Götubílaflokkur : 4.900
Passagjald: 900
Kaffi: Frjáls framlög í kaffibauk 🙂

Bestu kveðjur, Stjórn City Taxa ehf

Uppfærsla:

Vegna orðróms um að bílstjórar verði að vera skuldlausir við fyrri stöð við flutning upplýsist að svo er ekki samkvæmt reglugerð. Hér að neðan er reglugerðin í heild sinni eins og Samgöngustofa sendi okkur hana og HÉR er hægt að smella sér beint á hana.

24. gr.
Hlutverk og skyldur.

Samgöngustofa veitir bifreiðastöðvum starfsleyfi og hefur eftirlit með þjónustu þeirra. Hver leigubifreiðastöð skal fylgjast með því að ökumenn, sem þar hafa afgreiðslu, fari eftir fyrirmælum laga og reglugerða um leigubifreiðar og tilkynna Samgöngustofu ef út af bregður.

Bifreiðastöð skal fá heimild til lágmarks aðgangs að gagnagrunni Samgöngustofu til þess að staðfesta lögmæti atvinnuleyfa og undanþáguheimilda.

Bifreiðastöð skal sjá til þess, að ekki séu notaðar aðrar bifreiðar til leiguaksturs á bifreiðastöð en þær, sem skráðar eru sem leigubifreiðar og er eign viðkomandi leyfishafa eða leyfishafi er skráður fyrsti umráðamaður að skv. samningi við löggilt kaupleigu- eða rekstrarleigufyrirtæki, sbr. lög nr. 23/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.

Bifreiðastöð skal halda til haga upplýsingum um nýtingu atvinnuleyfa og heildarfjölda ökuferða á viðkomandi stöð og láta Samgöngustofu slíkar upplýsingar í té þegar óskað er eftir þeim.

Bifreiðastöð ber að tilkynna Samgöngustofu um þá atvinnuleyfishafa sem ekki hafa nýtt leyfið sitt í 2 mánuði umfram lögbundnar heimildir. Telji Samgöngustofa að bifreiðastöð brjóti gegn reglum þeim er gilda um starfsleyfi bifreiðastöðvar ber henni að tilkynna viðkomandi bifreiðastöð það ásamt áskorun um úrbætur. Verði ekki orðið við áskorun Samgöngustofu fellur starfsleyfi hennar niður. Samgöngustofu er þó heimilt að veita bifreiðastöð starfsleyfi á ný ef fyrir liggur staðfesting á úrbótum.

Leyfishafi skal hafa bifreið sína í afgreiðslu hjá bifreiðastöð sem fengið hefur starfsleyfi Samgöngustofu. Bifreiðastöð er óheimilt að taka bifreið í afgreiðslu fyrr en tilkynning um útgáfu atvinnuleyfis eða flutning á milli stöðva hefur borist frá Samgöngustofu. Vilji leyfishafi flytja sig á aðra stöð skal hann segja upp stöðvarleyfi sínu með eins mánaðar fyrirvara.